Seðlabankinn þarf að halda stýrivöxtum háum lengur en ella til að slá á þensluna sem skapast til viðbótar ef ákveðið verður að ráðast í þær álframkvæmdir sem mestar líkur virðast á um þessar mundir, segir greiningardeild Íslandsbanka.

Að meðaltali mun bankinn halda vöxtum sínum tveimur prósentustigum hærri á tímabilinu 2006 til 2012 verði af framkvæmdum.

Áfram má reikna með að stýrivextir bankans nái hámarki í 11,5% á þessu ári, en lægst mun bankinn að líkum fara með vexti sína í 7% árið 2008.

Þá hækkar hann vextina aftur og ná þeir hámarki í 9,5% árið 2011. Ef ekki verður af framkvæmdum má reikna með að bankinn yrði kominn með vexti sína niður í 5,5% árið 2008, segir greiningardeildin.

Frekari uppbygging áliðnaðar mun hafa í för með sér sterkari krónu en annars væri og reiknar greiningardeild Íslandsbanka með því að munurinn verði um 6,5% að meðaltali fram til ársins 2012.

Verðbólga verður líklega nokkru minni næstu árin ef farið verður í nýjar stóriðjuframkvæmdir en annars, og er meginorsökin minni gengislækkun krónu.

Greiningardeildin gerir ráð fyrir að krónan veikist nokkuð á næstu misserum, gengisvísitalan fari hæst í 120 stig í byrjun næsta árs.

Síðar styrkist króna á ný og nái mestum styrk í 107 stigum gengisvísitölu í árslok 2009. Frá og með árinu 2010 fer svo krónan að síga á nýjan leik og leitar jafnvægis nærri vísitölugildinu 125.