Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, sem var nýverið steypt úr stóli af Sigurði Inga Jóhannssyni, forsætisráðherra, verður áfram oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu og haft er eftir heimildum að fjölmargar áskoranir um að halda sæti sínu hafi borist Sigmundi og fullyrt er í Morgunblaðinu að hann verði við þeim áskorunum og haldi sæti sínu sem oddviti í Norðausturkjördæmi.

Þar af leiðandi er þar talið ólíklegt að Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kljúfi flokkinn.

Segja sannanir fyrir svindli

Einnig telur fulltrúi Framsóknarfélagsins í Reykjavík að svindlað hafi verið á flokksþingi Framsóknar, þar sem að Sigurður Ingi var kjörinn formaður. Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, segir í Fréttablaðinu að fjöldi fólks hafa sagt sig úr flokknum í dag og að það verði erfitt að ná honum aftur saman sem einnig heild.

Sveinn Hjörtur segir að skráðir þingfulltrúar úr Reykjavík hafi ekki verið kosningarétt þegar kom að formannskjörinu. Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar í Reykjavík segir einnig í viðtali við Fréttablaðið að flokkseigendafélagið og fjármagnsöflin hafi hrifsað völdin af grasrótinni í Framsókn.