Eins og greint var frá á vef Viðskiptablaðsins fyrr í dag hefur Eden ehf. verið tekið til gjaldþrotaskipta og auglýst eftir kröfum í búið.

Arnþór Jón Egilsson, rekstrarstjóri Eden í Hveragerði segir þó í samtali við Viðskiptablaðið að rekstur verði áfram í húsinu en eins og fram kom í morgun hefur Sparisjóður Suðurlands leyst til sín fasteignina.

Arnþór segir að húsið verði leigt af Sparisjóðnum og áfram verði þar rekstur.

„Reksturinn hefur gengið vel í sumar og við höldum ótrauð áfram,“ segir Arnþór og minnir á að gjaldþrotið snerti eigendur húsnæðisins en ekki reksturinn í húsinu.

„Við erum að styrkja reksturinn, auka vöruúrval og hér verður opið áfram. Við gefumst ekkert upp,“ segir Arnþór.