Tap á rekstri Flögu Group nam 1,24 milljónum Bandaríkjadala (86 milljónum króna) á fyrstu sex mánuðum ársins 2006, en á sama tíma í fyrra var tapið 1,08 Bandaríkjadalir (74,6 milljónir króna), segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Á öðrum ársfjórðungi nam tapið 368.000 Bandaríkjadölum (24,44 milljónum króna), en á sama tíma í fyrra var 26.000 dala (1,8 milljón króna) hagnaður á rekstrinum.

Tekjur námu 7,9 milljónum Bandaríkjadala (546 milljónum króna) á öðrum ársfjórðungi sem er 9% samdráttur miðað við sama tímabil fyrra árs, en þá voru tekjur fyrirtækisins 8,7 milljónir Bandaríkjadalir.

EBITDA framlegð nam 196 þúsund Bandaríkjadölum á öðrum ársfjórðungi. Innifalinn er kostnaður vegna skipulagsbreytinga er nemur 140 þúsund Bandaríkjadölum sem er færður með reglulegum gjöldum í samræmi við reikningsskilastaðla, segir í tilkynningunni.

Yfirstjórn Flögu Group hf. er bjartsýn sem fyrr að markmiðum um skilvirkni og stöðugan markaðsvöxt sem var driffjöður skipulagsbreytinga verði náð og að fyrtækið sé á réttri braut til að ná langtíma rekstrarárangri, segir í tilkynningunni.