Tap á rekstri Byggðastofnunar nam 152,8 milljónum króna í fyrra, en árið 2011 nam tapið 235,7 milljónum. Báðir liðir rekstrarreikningsins, þ.e. tekjur og gjöld, drógust saman milli ára en gjöldin þó heldur meira. Hreinar vaxtatekjur lækkuðu úr 639,9 milljónum í 593,8 milljónir, og aðrar rekstrartekjur lækkuðu úr 319,1 milljón í 193,3 milljónir.

Rekstrargjöld lækkuðu úr 1.194,7 milljónum í 939,8 milljónir og munar þar mestu um að framlög í afskriftarreikning útlána lækkuðu úr 710,8 milljónum króna í 444,9 milljónir. Reyndar minnkaði afskriftarreikningurinn um tæpan milljarð á árinu en það kemur til vegna þess að endanlega töpuð útlán námu 1,3 milljörðum króna.

Eignir stofnunarinnar lækkuðu úr 17,6 milljörðum í 16,7 milljarða, en langstærsti þátturinn í eignum félagsins eru útlán til viðskiptavina sem í árslok 2012 stóðu í 12,6 milljörðum króna. Skuldir nema alls 14,6 milljörðum, en voru 17,4 milljarðar ári fyrr. Nær allar skuldir stofnunarinnar eru við lánastofnanir eða eigendur skuldabréfa Byggðastofnunar. Eigið fé nam svo 2,1 milljarði króna, en þar inn í er tveggja milljarða króna eiginfjárframlag ríkissjóðs sem greitt var til stofnunarinnar í fyrra og í janúar í ár.

Launakostnaður Byggðastofnunar jókst úr 182,2 milljónum árið 2011 í 194,5 milljónir í fyrra en að meðaltali starfaði 21 starfsmaður hjá stofnuninni í fyrra sem er einum manni meira en árið 2011. Laun forstjóra, Aðalsteins Þorsteinssonar, námu alls 13,6 milljónum eða um 1,1 milljón króna á mánuði.