Stjórnarformaður MS, Egill Sigurðsson, býst við að tap verði á rekstri fyrirtækisins annað árið í röð. Segir hann þetta í kjölfar ákvarðana verðlagsnefndar búvara, en fyrir mánaðarmót tilkynnti hún að heildsöluverð á mjólk og mjólkurafurðum hækki um 2,5%.

Ákvarðar nefndin þannig hvort tveggja það verð sem MS kaupir hráefnið og selur vörur sínar á. „Þarna á milli er mjög þröngt svigrúm,“ segir Egill í viðtali við Vísi .

Starfslokagreiðsla fyrrum forstjóra

„Á meðan erum við að horfa upp á launahækkanir í fyrirtækinu að meðaltali um tuttugu prósent vegna nýrra kjarasamninga. Þetta verður þungt ár hjá okkur, það er alveg fyrirséð.“

Kemur fram í ársreikningi MS fyrir árið 2015 að greiðslur til stjórnenda hafi aukist um 37 milljónir króna, í 141 milljón króna. Kemur það til vegna starfslokagreiðslu til Einars Sigurðssonar fyrrverandi forstjóra fyrirtækisins.

Jafnframt þurfti fyrirtækið að leggja fram 112,7 milljónir króna í tryggingar vegna málaferla um einkaleyfi á skyrnafninu í Finnlandi. Segir Egill að MS hafi fengið lögbann á sölu fyrirtækjanna Arla og Valio á skyri í Finnlandi.