Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra segir að áfram sé unnið að erlendri lántöku ríkissjóðs til að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands. „Við erum að reyna að gera þetta eins vel og við getum og erum að kanna allar leiðir,“ segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann bendir á að lántakan hafi aldrei verið tímasett og því sé ekki hægt að tala um neina frestun í þessu sambandi. Á hinn bóginn sé ljóst að kjörin sem fáist um þessar mundir séu óhagstæð.

Á vef Bloomberg-fréttastofunnar fyrir helgi var haft eftir Árna að erlend lán væru á óviðunandi kjörum og að það þýddi að lántöku yrði frestað. „Ekki er um það að ræða að við ætlum ekki að taka lán eða að við ætlum að fresta því,“ ítrekar hann í samtali við Viðskiptablaðið. „Auk þess tókum við erlent lán í síðasta mánuði. Það er því ekki eins og við séum ekki að taka lán,“ bætir hann við og vísar til þess að ríkissjóður hafi gefið út erlenda víxla fyrir 80 milljónir Bandaríkjadala og 150 milljónir evra í júlí, sem jafngildir um 25 milljörðum íslenskra króna. Andvirði útgáfunnar er, samkvæmt upplýsingum Lánasýslu ríkisins, varðveitt sem hluti af gjaldeyrisforða Seðlabankans.

Gjaldeyrisforðinn var því rúmlega 227 milljarðar í lok júlí. Árni segir að lánakjörin hafi verið ásættanleg en vill ekki tilgreina þau nánar. Hjá Seðlabankanum fengust þær upplýsingar að þetta væru lán til skamms tíma. Þau væru með gjalddaga á þessu ári.

Alþingi samþykkti í lok maí heimild til handa ríkissjóði til að taka á þessu ári lán fyrir allt að 500 milljörðum króna sem meðal annars yrði nýtt til að styrkja gjaldeyrisforðann. Í athugasemdum frumvarpsins var tekið fram að ekki lægi fyrir hvenær á árinu, að hvaða marki og í hvaða áföngum heimildin yrði nýtt.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .