Í framhaldi af þeim viðræðum sem hafa átt sér stað á milli Sparisjóðabanka Íslands hf. (áður Icebank) og stærstu lánveitenda bankans um fjárhagslega endurskipulagningu hans hefur verið skipaður vinnuhópur með fulltrúum Seðlabanka Íslands, erlendra lánveitenda og bankans sjálfs.

Vinnuhópurinn hefur frá því snemma í febrúar unnið að tillögu um fjárhagslega endurskipulagningu og framtíðarskipulag bankans.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sparisjóðabankanum en Seðlabankinn hefur veitt bankanum frest á veðkalli fram til 28. mars nk. til að ljúka megi þessari vinnu og er unnið að samþykki erlendra lánveitenda bankans fyrir jafn löngum fresti.

Þá hefur Fjármálaeftirlitið veitt bankanum jafn langan frest til að koma eiginfjárgrunni sínum í horf sem uppfyllir skilyrði laga um fjármálafyrirtæki.