Að sögn Eyþórs Arnalds, framkvæmdastjóra Strokks Energy ehf., er engin bilbugur á áformum þeirra um að reisa sólarkísilverksmiðju hér á landi. Hefur verið horft til þess að nýta orku úr neðri hluta Þjórsár þrátt fyrir óvissu með tímasetningar.

Fram til þessa hefur einkum verið horft til þess að staðsetja verksmiðjuna í Þorlákshöfn.

Félagið hefur unnið að þessu máli síðustu 18 mánuðina en ef verksmiðjan yrði að veruleika yrði um að ræða 150 störf í 1. áfanga og fjárfestingu upp á 250 milljónir Bandaríkjadala.

,,Við höfum ekki viljað vera með of miklar yfirlýsingar uppi varðandi þetta verkefni. Strokkur sérhæfir sig í grænni stóriðju og Becromal er fyrsta slíka verkefnið sem verður að veruleika nú erum við að horfa til næsta verkefnis og það teljum við að verði sólarkísill. Undirbúningur hefur gengið vel og fyrir liggur hagkvæmnisathugun og undirbúningsvinna. Viljayfirlýsing við Landsvirkjun hefur verið framlengd ítrekað en við vinnum áfram að því af fullum þunga,” sagði Eyþór.

Í fyrsta áfanga þyrfti verksmiðjan um 50 MW afl en heildaraflþörf eftir stækkun gæti orðið 100 MW. Að sögn Eyþórs hefur þörfin fyrir sólarkísil ekki minnkað þrátt fyrir kreppu og þessi markaður staðið hana betur af sér en til dæmis stál- og álmarkaður. Að sögn Eyþórs hefur þessi markaður vaxið um um það bil 30% á ári undanfarið. ,,En til að svona verksmiðja komi þarf að vera hér eðlilegur markaður fyrir fjárfesta og hindrunarlaust fjármagnsflæði,” sagði Eyþór.