Með sameiningu Ölgerðarinnar og Danól var ætlunin að ná fram samlegð eins og kemur fram í ítarlegu viðtali við Andra Þór Guðmundsson, forstjóra félagsins, í Viðskiptablaðinu í dag.

Ákveðið var í kjölfar sameiningarinnar að ráðast í miklar byggingaframkvæmdir. Eins og vegfarendur við Vesturlandsveginn hafa tekið eftir er enn unnið af miklum krafti við stórhýsi Ölgerðarinnar þar.

Stefnt er að því að loka húsinu fyrir jól og steypa gólfið undir lagerinn. Stefnt er að því að setja upp rekka í janúar og flytja inn fyrstu vörurnar í febrúar og ljúka flutningunum í apríl eða maí með flutningi á skrifstofum félagsins.

Andri segir í viðtalinu að það myndi gerbreyta starfsemi félagsins sem hefur verið með starfsstöðvar á átta mismunandi stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Framleiðsla Sólar er uppi í Lynghálsi, sérvörulager að Draghálsi, þjónustudeild í Stangarhyl, lager í Skútuvogi 1, lager og skrifstofuaðstaða í Skútuvogi 3, lager og skrifstofur í Vatnagörðum og svo eru þeir í vöruhóteli Eimskips. Þetta erum við allt að færa undir eitt þak og náum þar af leiðandi töluverðri hagræðingu frá fyrsta degi..

,,Við getum haft alla vöruna hér undir sama þaki og getum sameinað dreifingu og tínslu. Yfirflæðislager verður hjá Vöruhóteli Eimskip þannig að húsnæðið er síst of stórt fyrir núverandi starfsemi.  Þessi fjögur svið eru að selja mikið til sömu kúnnunum. Þetta er lokahnykkurinn í sameiningu þessara fyrirtækja. Markmið okkar er auðvitað að vera með besta sölu- og markaðsfyrirtæki landsins og vera með þannig kostnaðarstrúktúr að við séum með ódýrustu sölu og dreifingu á matvælum í landinu. Við getum vonandi þannig stuðlað að lægra vöruverði þegar til lengri tíma er litið. Þetta er okkar framtíðarsýn."

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.