Japanska Nikkei hlutabréfavísitalan féll um 3% í dag og þurrkaði því út þá hóflegu hækkun sem átti sér stað á föstudaginn. Á fimmtudaginn féll Nikkei vísitalan um ein 7,3% og hefur ekki fallið hraðar á einum degir í rúm fjögur ár.

Lækkunin í dag er m.a. rakin til styrkingar jensins gagnvart Bandaríkjadal í dag. Frá áramótum hefur jenið fallið um 16% gagnvart Bandaríkjadal og Nikkei vísitalan hefur hækkað um 36%.

Japansbanki hefur lofað því að pumpa allt að 1.400 milljörðum jena í japanska hagkerfið til að blása lífi í það á ný og til að veikja jenið. Markmiðið er að binda endi á fimmtán ára stöðnun í japanska hagkerfinu.

Um nokkurn tíma leit út fyrir að þessi stefna væri að bera ávöxt, en í frétt CNN segir hrunið á fimmtudaginn síðastliðinn hafi vakið marga til umhugsunar um það hversu áhrifarík stefnan mun í raun verða.