Kínversk hlutabréf héldu áfram að falla í viðskiptum dagsins eftir mikið verðhrun á mörkuðum í gær. Í Shanghai hefur vísitalan fallið um 7,63% í dag, en í gær nam lækkunin 8,5%. Þá hefur Nikkei-vísitalan í Tókýó lækkað um tæp 4% en aftur á móti hefur Hang Seng-vísitalan í Hong Kong hækkað lítillega eða sem nemur 0,29%.

Þrátt fyrir þetta virðast vísitölur í Evrópu vera að ná sér á strik. Markaðir opnuðu víða fyrir klukkustund síðan og hefur FTSE-vísitalan í Lundúnum nú hækkað um 1,8%. Þá hefur Dax-vísitalan í Frankfurt hækkað um 2,14% og Cac-vísitalan í París um 1,98%.

Shanghai-vísitalan er nú komin niður fyrir 3.000 stig í fyrsta sinn síðan í desember á síðasta ári, en vísitalan hafði hækkað mikið á árinu þar til markaðurinn tók dýfu núna í sumar. Eru kínversk stjórnvöld sökuð um að hafa ýtt undir verðbréfabólu í hagkerfinu að undanförnu. Enn er þó aðgerða vænst af hálfu kínverskra stjórnvalda, og búist við að þau muni lækka stýrivexti og dæla peningum í hagkerfið til þess að koma í veg fyrir frekara verðfall á næstu dögum.

Hægt er að sjá yfirlit helstu hlutabréfavísitalna á vef BBC .