Franskar herflugvélar gerðu loftárásir á borgina Raqqa í Sýrlandi í nótt. Borgin er á valdi Íslamska ríkisins. Sprengjurnar eyðilögðu stjórnstöðvar og þjálfunarbúðir vígasveita Isis, að sögn herforingjaráðs franska hersins. Alls voru 16 sprengjum varpað í nótt, en 20 sprengjum til viðbótar var varpað á sunnudag.

Francois Hollande, forseti Frakklands tilkynnti í gær að flugmóðurskipið Charles de Gaulle yrði sent til miðjarðarhafsins til að auka við heraflann í baráttunni gegn Isis. Skipið er flaggskip franska hersins, en það hefur 26 herflugvélar sem munu koma til viðbótar við þær 12 sem eru þegar til staðar.

Hollande sagði á þingfundi í Versölum að Frakkland ætti í stríði, og að Frakkland myndi tortíma Ríki íslams. „Það verður engin hvíld og ekkert vopnahlé.“