Páll Matthíasson, sem í morgun var settur forstjóri Landspítalans, segir að reynsla sín síðustu ár í framkvæmdastjórn spítalans á erfiðum umrótartímum sem og í klínísku starfi á spítalanum verði honum mikilvæg sem forstjóri spítalans. Hann hefur setiið í framkvæmdastjórninni, sem framkvæmdastjóri geðsviðs, allt frá árinu 2009.

„Það er ljóst að framundan er áframhaldandi barátta fyrir hagsmunum skjólstæðinga spítalans og uppbygging hans sem góðs vinnustaðar sem laðar að og heldur hæfu starfsfólki. Ég lít á þetta sem samstarfsverkefni okkar sem störfum á spítalanum og stjórnvalda. Leiðarljós Landspítalans eru umhyggja, fagmennska, öryggi og framþróun og í engum þessara þátta má gefa eftir á flaggskipi íslenskrar heilbrigðisþjónustu,” segir Páll í tilkynningu sem birtist á vef Landspítalans.

Páll hefur starfað á Landspítala síðastliðin sjö ár og frá árinu 2009 sem framkvæmdastjóri geðsviðs sjúkrahússins með setu í framkvæmdastjórn spítalans og einn af staðgenglum forstjóra.

Páll er geðlæknir að mennt og lauk doktorsprófi frá Geðfræðastofnun Lundúnaháskóla árið 2006. Hann er klínískur dósent við læknadeild Háskóla Íslands. Frá árinu 2007 hefur Páll starfað á Landspítala, fyrst sem yfirlæknir og frá 1. maí 2009, ráðinn til 5 ára, sem framkvæmdastjóri Geðsviðs með setu í framkvæmdastjórn spítalans og einn af staðgenglum forstjóra.