Það er mat ráðamanna á Nýja-Sjálandi að eftirspurn eftir þarlendum skuldabréfum verði áfram mikil. Haft er eftir Philip Combes, sem hefur umsjón með útgáfu ríkisskulda í stjórnkerfi landsins, í samtali við Dow Jones-fréttastofuna að allt bendi til þess að mikill áhugi sé meðal erlendra fjárfesta á nýsjálenskum skuldabréfum og ekkert bendi til þess að hann fari þverrandi.

Rétt eins og á Íslandi eru vextir háir á Nýja-Sjálandi og gengi gjaldmiðils landsins gagnvart helstu gjaldmiðlum er sterkt. Vextir eru 7,75%, eða þeir næst hæstu í þróuðu hagkerfi á eftir Íslandi. Nýsjálenski dalurinn hefur haldist sterkur mun lengur en flestir gjaldeyrissérfræðingar gerðu ráð fyrir. Áhugi erlendra fjárfesta á skuldabréfum, sem er knúin áfram af háum vöxtum, hefur haldið nýsjálenska dalnum sterkum og náði hann sögulegu hámarki eftir að gengi hans var látið fljóta í síðasta mánuði en þá fór hann í 0,7493 gagnvart Bandaríkjadal. Meðalgengi nýsjálenska dalsins eftir að hann var látinn fljóta gegn öðrum gjaldmiðlum er 0,5800 gagnvart Bandaríkjadal.

Þrátt fyrir að hið háa gengi geri að verkum að undirliggjandi áhætta felist í fjárfestingum í þarlendum skuldabréfum segir Combes að eftirspurning sé mikil. Hann segir að þrátt fyrir að það sé erfitt að meta hvernig fjárfestar meti samspil áhættu af gengislækkun og háum stýrivöxtum blasi við að stýrivextirnir geri það að verkum að áhuginn er mikill.

Enda þótt gjaldeyrismiðlarar telji einsýnt að gengi nýsjálenska dalsins muni falla á næstu tólf mánuðum er hald manna að lækkunin verði ekki mikil. Áframhaldandi vaxtamunarviðskipti muni sjá til þess. Samkvæmt gögnum seðlabanka landsins héldu útlendingar 67% prósent af ríkisskuldabréfum landsins í þessum mánuði, sem er ekki fjarri sögulegu hámarki sem náðist í júlí á síðasta ári, eða 69,8%. Að sögn er munurinn á vaxtaskiptasamningum á móti undirliggjandi hlutabréfum í sögulegu hámarki.