Í umfjöllun breska dagblaðsins The Daily Telegraph í gær um væntanlega yfirtöku Baugs á bresku stóverslunarkeðjunni House of Fraser segir að ef kaupin ganga eftir þá verði þetta stærsta og mikilvægasta yfirtaka Baugs í Bretlandi til þessa í áframhaldandi ferðalagi skólabræðranna Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra félagsins, og Gunnars Sigurðsonar, framkvæmdastjóra fjárfestinga Baugs í Bretlandi.

Reynt er að varpa ljósi á vinskap þeirra félaga. Þar er sagt að vinskapur "dúettsins" nái allt aftur til þess tíma er þeir voru saman í skóla í miðbæ Reykjavíkur. Hið rétta mun þó vera að þeir hafi að vísu verið á sama tíma í Verslunarskólanum, eða allt þar til í kennaraverkfalli 1989 þegar Jón Ásgeir sneri sér að fullu að því að byggja upp Bónusverslanirnar með föður sínum. Verslunarskólinn útskrifaði nemendur það árið, sem ekki þreyttu lokapróf og var stuðst við miðsvetrareinkunn. Jón Ásgeir og Gunnar þekktust lítið sem ekkert á þeim árum, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Baugur er ekki lengur óþekkt fyrirbæri í Bretlandi því að í hvert sinn sem forsvarsmenn fyrirtækisins ræskja sig vekur það nær undantekningalaust athygli bresku pressunar. Í grein í Daily Telegraph í gær er sagt að á meðan Gunnar leggi lokahönd á tilboð í House of Fraser, sé Jón Ásgeir þegar búinn að gera áætlun hvað hann ætli sér að gera við fyrirtækið. Samhugur þeirra félaga sé svo mikill að á meðan Gunnar einbeitir sér að fjármögnun kaupanna, þá leggi "víkingurinn" Jón Ásgeir línurnar um lífið að loknum kaupunum á House of Fraser..

Sagt er að þeir séu búnir að vinna náið að kaupunum á House of Fraser mánuðum saman og séu jafnvel búnir að "plotta" um þetta mál lengur en það. Einnig segir blaðið að fyrsta tilraun Baugs til að banka að dyrum House of Fraser fyrir tveim árum hafi ekki skilað tilætluðum árangri, en hins vegar hafi félagið þá grætt vel á bréfum í fyrirtækinu vegna orðróms um að yfirtaka Baugs væri á næstu grösum. Mun meiri alvara hafi þó legið að baki þegar Baugur gerði skyndiáhlaup á House of Fraser í apríl síðastliðnum og tókst að ná 9,5% skerf af hlutafé fyrirtækisins fyrir "aðeins 130 pens á hlut", samanborið við þau 148 pens sem nú eru í boði.

The Daily Telegraph segir að þegar Apax Partners hafi gefist upp á að reyna yfirtöku fyrr á árinu hafi það ekki tekið Jón Ásgeir og félaga langan tíma að leggja fram yfirtökutilboð fyrir stjórnina upp á 350 milljónir punda, sem samsvarar um 46 milljörðum króna. Þessi fjárfesting Baugs mun þó reynast miklu verðmætari en það. Gunnar mun leika stórt hlutverk í að ná þessari fjárfestingu til baka fljótt og vel með aðstoð Rothschild-bankans. "Það leikur enginn vafi á að þeir munu selja og endurleigja höfuðstöðvar House of Fraser," segir í grein The Daily Telegraph.