Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur ákveðið að skipun fjárhaldsstjórnar fyrir sveitarfélagið Álftanes verði framlengd til 31. október 2012. Fjárhaldsstjórn yfir sveitarfélaginu var fyrst skipuð í febrúar 2010 þar sem það var komið í greiðsluþrot.

Fjárhaldsstjórnin, sem skipuð er þremur einstaklingum, þarf að samþykkja allar greiðslur úr sjóðum sveitarfélagsins. Sameining sveitarfélagsins Álftaness við Garðabæ er til umræðu innan sveitarstjórnanna en gert er ráð fyrir því að kosið verði um sameiningu í haust á þessu ári.

Samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna samþykkti bókun þess efnis í maí síðastliðnum.