Greiningaraðilar búast við að vísitala neysluverðs í janúarmánuði verði sama sem óbreytt en Hagstofan birtir niðurstöður verðbólgumælinga sinna næstkomandi föstudag.

Greining Glitnis býst við að vísitala neysluverðs standi óbreytt, greiningardeild Landsbankans spáir því að verðbólga hækki um 0,2% og greining Kaupþing spáir 0,1% hækkun. Samkvæmt þessum spám búast greiningaraðilar við að í kjölfarið verði dragist tólf mánaða verðbólga niður og verði á bilinu 6,6% - 6,8%. Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,04% í desember og mælist tólf mánaða verðbólga nú 7%.

Að sögn greiningaraðila eru það útsöluáhrif og gjaldskrárhækkanir hins opinbera sem tóku gildi við áramót sem vegast á til hækkunar og lækkunar vísitölunnar á þessu tímabili. Verðbólga hefur verið að dragast saman síðan í haust en mest mældist tólf mánaða verðbólga á árinu 8,6% í ágúst mánuði.

Seðlabankinn mun koma til með að fagna frekari tíðindum af hjöðnun verðbólgu en næsti vaxtaákvörðunarfundur bankans er þann 6. febrúar næstkomandi. Greiningaraðilar gera ráð fyrir að Seðlabankinn nái 2,5% verðbólgumarkmiði sínu í vor eða í sumar á þessu ári og að þar muni aðgerðir stjórnvalda til að lækka vöruverð sem taka gildi í mars mikið að segja.