Hlutabréf halda áfram að hækka í Bandaríkjunum, nú þriðja daginn í röð.

Nasdaq hækkaði um 2,32%, Dow Jones um 1,45% og S&P 500 vísitalan hækkaði um 1,36%. Þetta er mesta samfellda hækkunin á þessu ári.

Það voru tæknifyrirtæki sem leiddu hækkun dagsins. Applied Material, stærsti framleiðandi framleiðslutækja fyrir tölvuframeiðslu hækkaði um 9,2% í dag. Fyrirtækið tilkynnti að pöntun á tækjum til að framleiða tölvuflatskjái hafi aukist yfir 5% á fyrsta ársfjórðungi. Önnur tölvu- og hugbúnaðarfyrirtæki hækkuðu samfellt um 2,7% í dag að sögn Bloomberg fréttaveitunnar.

Networke Appliance, sem framleiðir meðal annars hugbúnað fyrir bandaríkjaher hækkaði um 8,2% í dag.

Það voru þó ekki allar fréttir jákvæðar í dag. MGIC Investment, einn stærsti lánasjóður Bandaríkjanna lækkaði töluvert eða um 13% í dag. Fyrirtækið tilkynnti um tap upp á 1,47 milljarð dala á fjórða ársfjórðungi.

Smásöluverslun jókst óvænt um 0,3% í janúar. Smásölugeirinn í S&P 500 vísitölunni hækkaði í dag um 0,2% í dag. Það voru fyrst og fremst aukning í sölu á bílum, fötum og bensíni sem hækkar neysluvísitölur vestra.

Olíuverð hækkaði í dag og í lok dags kostaði tunnan 93,24 bandaríkjadali. Exxon og önnur bandarísk olíu- og orkufyrirtæki hækkuðu í kjölfarið.