Gengi hlutabréfa Icelandair Group heldur áfram að lækka. Það sem af er degi hefur gengi bréfanna lækkað um 1 prósentustig í 561 milljón króna viðskiptum. Fyrr í dag var haldinn kynningarfundur á afkomu félagsins á fjórða ársfjórðungi.

Þar sagði Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, að frá seinni hluta janúar hefur bókunum fækkað hjá flugfélaginu, en hafi þó tekið við sér á síðustu dögum. Hann sagði að samdrátturinn væri einkum um að kenna aukinni samkeppni á markaði, en einnig hefði óvissa í alþjóðastjórnmálum áhrif. Síðustu daga hafi félagið lækkað fargjöld til að bæta samkeppnisstöðu sína og síðan þá hafi bókanir tekið við sér á ný.

Afdrifaríkur dagur

1. febrúar var afdrifaríkur dagur hjá Icelandair. Um morguninn sendi félagið frá sér afkomuviðvörun. Afkomuspá Icelandair var töluvert lakari en markaðurinn virðist hafa spáð fyrir um en í henni er gert er ráð fyrir að EBITDA félagsins á þessu ári verði talsvert verri en fyrir árið í fyrra. Í tilkynningu Icelandair til Kauphallarinnar gerir félagið ráð fyrir að EBITDA ársins 2017 verði á bilinu 140 til 150 milljónir dollara, samanborið við 210 til 220 milljónir dollara í fyrra, sem er allt að 36% lækkun.

Í kjölfarið hríðféll gengi bréfa Icelandair og hefur gengi hlutabréfanna ekki náð sér á strik síðan þá. 1. febrúar féll gengið um 23,98 prósentustig og eins og sjá má á grafinu hér að neðan hefur þróunin haldið áfram niður á við. Dagurinn í dag er engin undantekning. Í gær lækkaði gengi bréfa félagsins einnig, eða um 4,15%.

Hagnaðurinn lækkar milli ára

Í nýbirtu uppgjöri fyrir fjórða ársfjórðung kemur fram að hagnaður Icelandair á árinu 2016 eftir skatta nam 89,1 milljón dollara og er þar með talsvert lakari en hagnaður ársins 2015, þegar félagið hagnaðist um 111,2 milljónir bandaríkjadala. EBITDA á fjórða ársfjórðungi nam 2,5 milljónum dala samkvæmt tilkynningunni, samanborið við 22,9 milljónir dala á sama fjórðungi í fyrra.

Lækkun meðalfargjalda og gengisþróun skýra að mestu leyti lakari afkomu á fjórða ársfjórðungnum. Heildartekjur jukust aftur á móti um 12% á sama ársfjórðungi.