Hagar hafa sent frá sér afkomuviðvörun annan mánuðinn í röð, í þetta sinn eftir lokun markaða fyrir stærstu ferðahelgi ársins. Segir í viðvöruninni að breytt samkeppnisumhverfi hafi áhrif á rekstur og markaðsstöðu félagsins, en sölusamdráttur í magni og krónum er sagður halda áfram á milli mánaða á sömu nótum og í júní ef miðað er við fyrra ár.

Ekki er farið nánar út í það en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um þá kom fram í afkomuviðvörun fyrirtækisins fyrir júnímánuð sýndi að viðskiptavinum fyrirtækisins fækkaði um 1,8% á milli ára. Á sama tíma minnkaði sölumagn um 9,4% en í krónum talið er sölusamdrátturinn á milli ára um 8,5%, að teknu tilliti til aflagðrar starfsemi.

Hagar hafa verið nokkuð í fréttum í vikunni í kjölfar ákvörðunar þeirra um að draga sig út úr smásöluvísitölunni, en nýr keppinautur fyrirtækisins á markaði, Costco, hefur ekki veitt samsvarandi upplýsingar frá því fyrirtækið hóf starfsemi hér á landi í vor.

Segja lokanir og verðhjöðnun hafa áhrif

,,Undanfarið hefur verið unnið að miklum breytingum á Hagkaupsversluninni í Kringlu en lokun efri hæðar í febrúarlok hefur haft áhrif á veltu félagsins," segir í fréttatilkynningunni.

,,Þá er unnið að endurnýjun á verslun Zara í Smáralind sem nú hefur verið lokað tímabundið. Tilkynnt hefur verið að ný og stærri verslun verði opnuð í október nk. Þessar breytingar hafa áhrif á sölutekjur félagsins og hafa í för með sér kostnaðarauka allt þar til verslanirnar verða opnaðar á ný í októbermánuði.

Fram hefur komið í tilkynningum að rekstrarumhverfi félagsins er krefjandi, þar sem verðhjöðnun vegna gengisþróunar á sér stað á sama tíma og kostnaður hækkar, m.a. vegna kjarasamningshækkana launa og lífeyrissjóðsframlags.

Nú er ljóst að sölusamdráttur vegna gengisþróunar og breyttrar markaðsstöðu, ásamt kostnaðarauka, mun hafa nokkur áhrif á afkomu félagsins á fyrri helmingi rekstrarársins. Gera má ráð fyrir að EBITDA fyrir tímabilið mars til ágúst verði um 20% lægri en á fyrra ári.

Félagið vinnur áfram að hagræðingu og að bæta verslanir félagsins og þjónustu við viðskiptavini,með það að markmiði að takast á við breytt samkeppnisumhverfi. Auk þess er lögð áhersla á að nýta þau tækifæri sem sérstaða verslana félagsins gefur til sóknar."