Innflutningur á dagblaðapappír heldur enn áfram að dragast saman samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Fyrstu sjö mánuði ársins 2010 var hann 2.966 tonn á móti 4.957 tonnum á sama tímabili 2009. Nærri helmingi minni innflutningur var í júlí en í sama mánuði í fyrra eða 515 tonn á móti 959 tonnum. Til samanburðar voru flutt inn 9,937 tonn af dagblaðapappír fyrstu sjö mánuðina á metárinu 2007. Endurspeglar þetta m.a. samdrátt á auglýsingamarkaði og tölur um samdrátt í verslun og vekur ekki beint vonir um að viðsnúningur sé hafinn í efnahagslífinu.