Alls fóru 66.700 erlendir ferðamenn frá landinu um Keflavíkurflugvöll í maímánuði sem svarar til 24,4% fjölgunar milli ára. Miðað við tölur Isavia yfir úthlutuð stæði á Keflavíkurflugvelli hefði hins vegar mátt búast við 31% fjölgun. Þetta kemur fram í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka en þar segir líka að leiða megi líkum að því að mismunurinn þarna á milli megi að mestu rekja til fækkunar ferða Icelandair samhliða verkfalli flugmanna. Þrátt fyrir þetta telur Greining ekki ástæðu til að breyta spá sinni um fjölda erlendra ferðamanna til landsins að svo stöddu og gerir ráð fyrir því að þeir verði í það minnsta um 20% fleiri í ár en í fyrra.

Greining segir að forsendur þessarar spár kunni þó að bresta verði af frekari verkföllum innan flugstéttarinnar á árinu. Flugvirkjar hafa boðað verkfall í sólahring frá í kl. 06:00 þann 16. júní og ótímabundið verkfall frá 19. júní. Flugmenn sömdu svo aftur aðeins til 30.september á þessu ári og þurfa því að semja aftur innan ársins.

Greining segir að staða Icelandair þegar kemur að kjarasamningsviðræðum sé ekki eftirsóknarverð. Bróðurhluti launakostnaðar félagsins sé í íslenskum krónum en staðið hafi á tekjuvexti í myntinni enda hafi verið hægur vöxtur í utanförum Íslendinga síðustu ár. Á sama tíma hafi krónan verið að styrkjast og hefur hún t.a.m. ekki verið sterkari á fyrstu fimm mánuðum ársins frá því fyrir hrun. Saman leiði þetta að öðru óbreyttu til þess að hlutfall launakostnaðar í útgjöldum félagsins eykst.