Nú í morgun var undirritaður samningur á milli Íbúðalánasjóðs annars vegar og Íslandsbanka, KB banka og Landsbanka Íslands hins vegar um áframhaldandi viðskiptavakt þeirra með hús- og húsnæðisbréf. Því fækkar viðskiptavökum frá því sem áður var, en SPRON og Sparisjóðabankinn endurnýjuðu ekki samninga sína um viðskiptavakt. Gildir samningurinn frá og með deginum í dag til 30. júní á næsta ári.

Samningurinn nær til gömlu markflokka húsbréfa (IBH 21, 22, 26, 37 og 41) og húsnæðisbréfa (IBN 20 og 38) og skuldbinda viðskiptavakarnir þrír sig til að vera ávallt með kauptilboð að lágmarki 20 milljónir króna í hverjum flokki. Þetta er nokkur lækkun frá því lágmarki sem áður var, og ljóst að seljanleiki þessara flokka minnkar verulega með breytingum á viðskiptavaktinni og minnkun flokkanna.

Í Morgunpunktum Íslandsbanka var bent á að ávöxtunarkrafa húsbréfa hefur hækkað verulega í morgun eða um 36-48 punkta. Ávöxtunarkrafan er 4,7% á öllum flokkunum nema IBH 41 þar sem krafan er 4,6%. Ávöxtunarkrafa húsnæðisbréfa hefur hækkað um 3 punkta frá því á þriðjudag. Hækkun kröfunnar verður að teljast eðlileg í ljósi þess að enn er óljóst hve stórum hluta þessara markflokka hefur verið skipt út og þar með hve stórir flokkarnir eru. Beðið er tilkynningar frá Íbúðalánasjóði um niðurstöður skiptiútboðs bréfanna og má ætla að ávöxtunarkrafan breytist í kjölfarið.