Icelandair eru í öðru sæti yfir fyrirmyndarfyrirtæki Viðskiptablaðsins og Keldunnar en rekstur þess hefur farið ört stækkandi undanfarin ár samhliða auknum gestakomum til landsins en einnig með aukinni áherslu félagsins á tengiflug. Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Icelandair, segir niðurstöðuna endurspegla sterka fjárhagsstöðu félagsins. „Það er náttúrulega bara mjög ánægjulegt og endurspeglar að stefna félagsins hefur verið sú að vera með sterka fjárhagsstöðu. Við vitum að það eru sveiflur í okkar starfsemi sem við getum ekki alltaf stjórnað og félög í flugrekstri þurfa að vera fjárhagslega sterk til að geta tekist á við slíkar sveiflur,“ segir Bogi.

Segja má að á liðnu ári hafi verið talsverðar umbreytingar hjá félaginu en það kynnti nýlega umtalsverðar skipulagsbreytingar og þeim fylgdi framkvæmdastjórakapall. Bogi segir eðlilegt að félög séu í sífelldri endurskoðun á stefnu sinni og skipulagi. „Við gerðum það mjög ítarlega í sumar og haust og niðurstaðan var þessi, að einfalda skipulagið og horfa meira til þess að einbeita okkur að flugrekstrinum sem er hjartað í okkar rekstri. Breytingarnar fólu í sér að stjórnunarlögum er fækkað, boðleiðir styttast og þær fela einnig í sér samþættingu og hagræðingu.“

Spurður hvort félagið sjái aukin umsvif í tengiflugi sem meginvaxtarbroddinn segir Bogi að þar séu tækifæri en þau séu þó líka í gestakomum hingað til lands þótt vöxturinn hafi verið að dragast saman. „Já, við horfum til Keflavíkur sem tengistöðvar og sjáum áfram vaxtarmöguleika bæði til Evrópu og Norður-Ameríku. Við teljum að það geti vaxið áfram með heilbrigðum hætti líkt og verið hefur. Auðvitað teljum við líka að ferðaþjónustan á Íslandi, þó að hún hafi verið að vaxa mikið, búi enn yfir frekari möguleikum á vexti, sérstaklega ef við vöndum okkur við stefnumótun hér á landi. Við sjáum þó fyrir okkur að hlutfall þeirra sem ferðast milli Evrópu og Norður-Ameríku haldi áfram að hækka meðal okkar farþega,“ segir Bogi.

Reglulega hefur komið upp sú umræða að dreifa þurfi ferðamönnum betur um landið. Inntur eftir svörum um hvort Icelandair hafi hugsað sér að fljúga til Akureyrar beint frá áfangastöðum í Evrópu segir Bogi að fyrirtækið meti það líklegra til árangurs að tengja Keflavíkurflugvöll við flugvelli á Íslandi. Þannig hafi Icelandair sett af stað þróunarverkefni um flug frá Keflavík til Akureyrar sem sé nú í uppbyggingu.

Verkfall flugvirkja Icelandair fór heldur ekki fram hjá landanum en samningar flugmanna eru einnig lausir þó ekki hafi enn komið til verkfalls. „Þessi verkefni eru alltaf krefjandi, að semja við stéttarfélög en við teljum að það séu góðir möguleikar til þess að samningar klárist án þess að það þurfi að fara í hart. Viðræður eru í gangi og það er ágætis þráður í þeim. Við stefnum að því að gera þetta án þess að fyrirtækið og starfsmenn verði fyrir tjóni, það er ekki óskastaða neins að fara í verkföll,“ segir Bogi.

Nánar er fjallað um málið í sérblaði Viðskiptablaðsins og Keldunnar, Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri. Sérblaðið er opið öllum og hægt er lesa það með því að smella hér .