Hvorki F fasteignafélag ehf., sem er í eigu Seðlabanka Íslands, né aðrir kröfuhafar þrotabús Saga Capital höfðuðu mál gegn fyrrverandi slitastjórn félagsins til greiðslu bóta vegna hagsmunatengdrar þóknunar.

Bæði héraðsdómur og Landsréttur komust að þeirri niðurstöðu að ákvörðun 40 milljóna króna þóknunar, auk virðisaukaskatts, hefði verið tekin á slitafundi sem boðað var til með ólögmætum hætti. Hæstiréttur vísaði málinu frá sökum réttarfarsannmarka.

Sjá einnig: Íhuga bótamál gegn dómara

Skiptastjórar búsins, en annar þeirra var í slitastjórn og fékk tíu milljónir króna í sinn hlut, afréðu einnig að höfða ekki mál. Umrædd greiðsla var innt af hendi 15. apríl 2016 og fjögurra ára fyrningarfrestur því liðinn. Kröfuhafar fengu hins vegar ekki veður af henni fyrr en í febrúar 2018. Héraðsdómarinn Ástráður Haraldsson var formaður slitastjórnar og nam hlutur hans 20 milljónum króna.