„Við erum átta fjölskyldur sem kynntumst í gegnum líkamrækt og höfum dreymt um að opna líkamsræktarstöð sjálf síðustu ár en einhvern veginn hefur alltaf eitthvað þvælst fyrir okkur,“ segir Atli Fannar Bjarkason einn stofnanda líkamsræktarstöðvarinnar Afrek. Atli Fannar, sem er þekktastur fyrir feril sinn í fjölmiðlum, segir að þau vinirnir hafi að miklu leyti sett upp stöðina sjálf, þó með góðri hjálp frá alls konar fagfólki. Þess má geta að í hópnum eru reynslumiklir þjálfarar sem munu stjórna æfingum hjá Afrek, auk annarra.

Afrek
Afrek
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Nýja líkamsræktarstöðin er staðsett í Skógarhlíð í Reykjavík, en hún opnaði formlega á gamlársdag. Atli segir stöðina bjóða upp á fjölbreytta hópatíma þar sem lóð, ketilbjöllur og annar búnaður er notaður. „Þetta eru fjölbreyttar lyftingar en við erum búin að smíða tvenns konar prógrömm, annars vegar með áherslu á lyftingar með stöng og hins vegar lyftingar þar sem unnið er með ketilbjöllur og eigin líkamsþyngd, en til að byrja með verða hópatímarnir blanda af prógrömunum tveimur.“

Hann segir að mikið verði lagt upp úr góðri stemningu í Afrek. „Við höfum kynnst því sjálf hvað það er mikilvægt að það sé gaman á æfingu, það heldur manni við efnið og árangurinn fylgir síðan með. Fólk hefur ekkert endilega tímann í að vinna í einum vöðvahópi, það vill frekar mæta reglulega og taka vel á því með skemmtilegum hópi.“

Seldu kort í forsölu

Atli segir að farið hafi verið í hálfgerða hópfjármögnun til að koma verkefninu af stað. „Við settum af stað Facebook hóp þar sem við kynntum fólki fyrir hugmyndinni okkar og hópurinn stækkaði smám saman. Við hófum síðan hópfjármögnun inn á þessum hópi þar sem við seldum kort í forsölu og nýttum ágóðann af því í uppbyggingu á stöðinni. Það gekk hrikalega vel og nú erum við komin af stað með um hundrað iðkendur og erum mjög ánægð með viðtökurnar.

„Það er hægt að mæta á staðinn þegar það er æfing og prófa ef það er laust pláss, annars er líka hægt að senda á okkur línu,“ segir Atli og hvetur fólk til að kíkja í tíma. Á vefsíðu Afrek má síðan sjá nánar prógrömmin sem eru í boði og aðrar upplýsingar um stöðina.