Utanríksráðherra kynnti fyrir utanríkismálanefnd Alþingis í morgun hvernig staðið verður að aðildarviðræum við ESB. Í gær var greint frá því hver yrði aðalsamningamaður Íslands í viðræðunum og í dag var greint frá því hverjir myndu stýra 10 samninganefndum sem skipaðar hafa verið.

Það er nokkru færra en aðrar þjóðir hafa verið með og voru t.d. Króatar með 33 samninganefndir. Færri nefndir geta Íslendingar þakkað EES samningnum.

Uppbygging viðræðunefndanna hefur verið sótt til þeirra landa sem áður hafa verið í viðræðum við ESB. En vegna ESS samningsins og Schengen samkomulagsins verða viðræðurnar einfaldari.

Miklar vangaveltur höfðu verið um það hver yrði aðalsamningamaður Íslands en skipun Stefáns Hauks Jóhannessonar hefur mælst vel fyrri að því er heimildir úr utanríkisráðuneytinu herma að nafn hans hafði verið kynnt fyrir hagsmunasamtökum og stjórnmálaflokkunum án mótbára.

Eins og einn heimildarmaður sagði þá telst Stefán vera í hópi ,,afreksdiplómata" en hann var skipaður formaður vinnuhóps WTO um aðild Rússlands árið 2003 og gegnir því starfi enn. Hann var formaður samningahóps WTO um markaðsaðgang fyrir iðnaðarvörur í Doha-lotunni frá 2004 til 2006, og formaður í þriggja manna gerðardómi WTO árin 2002 og 2003 vegna deilu milli Evrópusambandsins, Kína og fleiri ríkja við Bandaríkin sem snérist um viðskipti með stál. Einnig hefur nýlega verið óskað eftir því að hann taki að sér fleiri ábyrgðastörf af því tagi.

Stefán er sendiherra í Brussel og er gert ráð fyrir að hann gegni því starfi áfram fyrst um sinn ásamt formennsku samninganefndarinnar.

Erlendir ráðgjafar verða fengnir

Formennska í öllum nefndum hefur verið kynnt og eru Íslendingar í öllum tilfellum í forsæti. Eftir því sem komist verður næst er gert ráð fyrir að nefndirnar kalli til sín erlenda ráðgjafa eftir því sem færi gefast, bæði við einstaka hópa og við samninganefndina í heild.

Utanríkisráðherra svaraði fyrr í dag fyrirspurn Birgis Ármannssonar um viðræðurnar. Þar sagðist Össur aldrei hafa sagt að viðræðurnar ættu að ganga hratt fyrir sig.