Búnaður til að afrita upplýsingar af greiðslukortum fannst nýverið í tveimur hraðbönkum Landsbankans. Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, segir hvorki vísbendingar um að upphæðir hafi verið teknar út af kortum þeirra sem búnaður náði að afrita né að þeir óprúttnu aðilar sem höfðu komið honum fyrir hafi náð að nýta sér upplýsingarnar.

Búnaðurinn fannst við viðgerð á öðrum hraðbankanum en mynd náðist af mönnunum á öryggismyndavél koma búnaðinum fyrir í öðrum hraðbanka. Kristján segir engu að síður að fylgst verði náið með þeim kortum sem talið er að búnaðurinn náði að afrita.

„Við leggjum áherslu á að loka kortum svo aldrei verði hægt að nýta þau og hringjum í viðskiptavini okkar og bjóðum fólki að loka þeim ef það sjálft kýs. En við lokum ekki kortum án samráðs við viðskiptavini,“ segir Kristján. Þeir sem vilja láta loka kortunum fá ný send á næstu dögum.

Spurður að því hvort algengt sé að afritunarbúnaður finnist í hraðbönkum segir Kristján það koma fyrir.