*

mánudagur, 6. apríl 2020
Innlent 24. febrúar 2020 19:20

Áfrýja gegn Björgólfi Guðmunds í París

Saksóknari í Frakklandi hefur óskað eftir áfrýjunarleyfi til hæstaréttar landsins vegna meintra blekkinga Landsbankans fyrir hrun.

Ritstjórn
Björgólfur Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður Landsbankans.
Aðrir ljósmyndarar

Saksóknari í Frakklandi hefur óskað eftir að fá að áfrýja máli gegn Björgólfi Guðmundssyni, fyrrverandi stjórnarformann og eins aðaleiganda i Landsbankans, og Gunnari Thoroddsen, fyrrverandi yfirmanni Landsbankans í Lúxemborg, til hæstaréttar landsins. 

Málið snýst um meintar blekkingar Landsbankans í Lúxemborg við veitingu lána með veði í fasteignum fyrir fall bankans árið 2008. Hluti lánsins fengu viðskiptavinirnir greitt út sem reiðufé en Landsbankanum var falið að fjárfesta afganginum. Hugmyndin var þá að ávöxtun af fjárfestingum bankans myndi að lokum greiða upp lánið.

Alls voru níu fyrrverandi stjórnendur bankans ákærðir. Þeir voru bæði sýknaðir í undirrétti í ágúst 2017 og aftur af áfrýjunardómstóli í janúar síðastliðnum. Farið var fram á þriggja ára skilorðsbundið fangelsi gegn Björgólfi í undirrétti.

Í uppgjöri LBI, gamla Landsbankans, kemur fram að fyrr í þessum mánuði hafi saksóknari sem og nokkrir lántakar hafi óskað eftir áfrýjunarleyfi til hæstaréttar landsins. Búist er við að beiðnin um áfrýjun verði fljótlega tekin fyrir.

Á meðan dómsmálin standa yfir hafa afborganir á lánunum verið fryst. LBI er sem stendur eini kröfuhafi slitabús Landsbankans í Lúxemborg. Vegna frystingarinnar sé mikil óvissa um hve miklar endurheimtur verði af lánunum og hve langan tíma taki að innheimta þau.