Icelandic Water Holdings hefur sent frá sér fréttatilkynningu vegna dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í lögbannsmáli þess gegn Iceland Glacier Wonders. Upphaflega hafði fengist lögbann hjá sýslumanni á notkun hins síðarnefnda fyrirtækis á vörumerkinu Iceland Glacier, en héraðsdómur felldi lögbannið úr gildi í síðustu viku.

Iceland Glacier Wonders er í eigu hollenska fjárfestisins Otto Spork. Rekur það átöppunarverksmiðju í Vestmannaeyjum og framleiðir þar vatn á flöskur undir merkjum Sno Iceland Glacier Water. Spork stefndi á að reka átöppunarverksmiðju á Rifi á Snæfellsnesi árið 2007. Í desember árið 2011 var svo fyrirtæki Spork hér á landi úrskurðað gjaldþrota.

Keyptu öll vörumerkjaréttindi

Í fréttatilkynningunni segir að í apríl 2013 hefði Icelandic Water Holdings hf. keypt öll vörumerkjaréttindi, þ.m.t. skráningar á vörumerkinu ICELAND GLACIER, af þrotabúi félagsins Iceland Glacier Products ehf. Tilgangurinn með kaupunum var að tryggja einkarétt fyrirtækisins á notkun vörumerkja sem eru mjög lík vörumerki Icelandic Water Holdings, ICELANDIC GLACIAL, og hefja notkun á vörumerkinu ICELAND GLACIER fyrir skyldar vörur.

Fljótlega eftir kaupin hafi komið í ljós að sömu aðilar og stóðu að rekstri Iceland Glacier Products ehf., þ.e. Otto Spork og aðilar honum tengdir, hefðu breytt nafni fyrirtækisins Iceland Global Water ehf. í Iceland Glacier Wonders ehf. auk þess sem hið nýja félag undir nýrri kennitölu hefði án heimildar hafið hagnýtingu á öllum hugverkaréttindum hins gjaldþrota fyrirtækis. Enginn sjáanlegur munur sé á vörum hins nýja félags og þeim sem hið gjaldþrota fyrirtæki framleiddi áður en það fór í þrot.

Rangfærslur í dómi héraðsdóms

Segir jafnframt að um leið og þetta hafi orðið ljóst að þessi aðili hefði tekið upp notkun vörumerkjanna hafi verið gerðar athugasemdir við notkunina og bréf sent til hins nýja félags. Illa hafi gengið að fá viðbrögð frá Iceland Glacier Wonders ehf. þrátt fyrir ítrekanir og því hafi Icelandic Water Holdings hf. verið nauðugur einn sá kostur að stefna Iceland Glacier Wonders ehf. Það sé því beinlínis rangt sem segir í dómi héraðsdóms að Icelandic Water Holdings hf. hafi ekki brugðist við þegar nafni félagsins var breytt. Segir í tilkynningunni að félagið hafi brugðst við um leið og það fékk vitneskju um breytinguna og stefndu í málinu innan þess frests sem gefin sé til þess í lögum.

Áfrýja dómnum til Hæstaréttar

Að lokum segir í tilkynningu Icelandic Water Holdings að í ljósi ofangreinds og fleiri efnislegra rangtúlkana héraðsdóms á vörumerkjarétti þá hafi fyrirtækið ákveðið að dómi héraðsdóms um að fella úr gildi lögbannsgerð sýslumanns verði áfrýjað til Hæstaréttar. Eigendur Icelandic Water Holdings hf. hafi nú þegar fjárfest meira en 115 milljónum dollara í markaðssetningu á vörumerkinu ICELANDIC GLACIAL og kynningu á hinum einstöku gæðum íslensks vatns um allan heim. Fyrirtækið muni eftir sem áður verjast öllum tilraunum annarra til að hagnast á vörumerki þeirra, ICELANDIC GLACIAL.