Ríkissaksóknari hefur áfýjað sýknu héraðsdóms yfir Styrmi Þór Bragasyni, fyrrverandi forstjóra MP banka, vegna þáttar hans í Exeter-málinu svokallaða. Frestur til að áfrýja málinu rennur út á fimmtudag.

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari staðfestir áfrýjunina í samtali við fréttastofu Vísis, sem greinir frá málinu.

Tvisvar sýknaður

Exeter-málið snerist um 1,1 milljarðs króna lán sem Byr veitti félaginu Exeter Holding frá október til desember 2008. Féð var notað til þess að kaupa stofnfjárbréf í Byr af MP banka og félagi í eigu Ragnars Z. Guðjónssonar, sparisjóðsstjóra Byrs, og síðan af Jóni Þorsteini Jónssyni, stjórnarformanni Byr. Þeir voru ákærðir fyrir umboðssvik fyrir að hafa keypt stofnfjárbréfin á yfirverði og með því valdið Byr tjóni sem að öllu jöfnu hefði lent á Ragnari og Jóni Þorsteini og síðan á MP banka. Styrmir Þór var einnig ákærður í málinu fyrir peningaþvætti, fyrir að hafa sem framkvæmdastjóri MP banka látið bankann taka við fé sem hann átti að vita að hefði skilað sér til bankans með umboðssvikum.

Sérstakur saksóknari ákærði þremenninganna vegna málsins.

Styrmir, Ragnar og Jón Þorsteinn voru upphaflega sýknaðir í Héraðsdómi. Þeir Ragnar og Jón voru síðan dæmdir í fjögurra og hálfs árs fangelsi í Hæstarétti í júní í fyrra. Máli Styrmis var hins vegar vísað aftur í hérað og var hann sýknaður þar í annað sinn um mánaðamótin síðustu. Hann sagði í samtali við vb.is málið óskiljanlegt. Það hafi tekið of langan tíma, tvö ár af ævi sinni.