Frá árinu 2005 hefur Áfrýjunarnefnd samkeppnismála fjallað um stjórnvaldssektir Samkeppniseftirlitsins í 29 tilvikum. Heildarfjárhæð sektanna nam 4.153 milljónum króna, en í sextán tilvikum voru sektir felldar niður eða lækkaðar. Eftir meðferð Áfrýjunarnefndar nemur heildarfjárhæð sektanna 2.579 milljónum króna og lækkuðu þær því um 38%.

Kemur þetta fram í svari iðnaðar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar alþingismanns um rannsökuð mál hjá Samkeppniseftirlitinu.

Af svarinu að dæma fer munur á ákvörðunum Samkeppniseftirlits og Áfrýjunarnefndar vaxandi eftir því sem líður á tímabilið. Á árunum 2005 til 2010 námu álagðar sektir eftirlitsins í þessum málum 2.763 milljónum króna, en eftir meðferð Áfrýjunarnefndar námu þær 2.199 milljónum króna og lækkuðu því um 20,4%. Á árunum 2011-2015 námu álagðar sektir Samkeppniseftirlitsins í þessum málum 1.390 milljónum króna, en voru aðeins 380 milljónir eftir meðferð Áfrýjunarnefndar. Lækkuðu sektarfjárhæðirnar því um 72,7% í meðförum nefndarinnar.

Athuga ber að hér er ekki um öll mál sem Samkeppniseftirlitið hefur tekið ákvörðun um að ræða, heldur þær ákvarðanir þar sem Áfrýjunarnefnd hefur fjallað um sektirnar.

Staðfest í 59,8% tilvika

Í svarinu kemur jafnframt fram að á tímabilinu hafi 91 mál verið kært til áfrýjunarnefndar, sum oftar en einu sinni, einkum þegar ágreiningur er um meðferð málsins undir rekstri þess. Endanleg niðurstaða máls (efni máls) hefur verið kærð til áfrýjunarnefndar í 82 málum. Af framangreindum 82 málum hefur ákvörðun Samkeppniseftirlitsins verið staðfest að öllu leyti í 49 tilvikum. Í 15 tilvikum hefur sektarfjárhæðum verið breytt. Í fjórum málum hefur kæru verið vísað frá. Þá hefur ákvörðun Samkeppniseftirlitsins verið felld úr gildi í 14 málum.

Hefur ákvörðun Samkeppniseftirlitsins því staðið óhögguð í 59,8% tilvika, verið breytt í 18,3% tilvika, felld úr gildi í 17,1% tilvika og í 4,9% tilvika hefur kæru verið vísað frá.