"Þessi núningur sem kominn er á milli Kaupþings og Seðlabankans, ég held að þetta sé afskaplega neikvætt fyrir innlendan fjármálamarkað," sagði Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Glitnis, á morgunfundi Félags um fjárfestatengsl.

Íslensk félög hafa óskað eftir að breyta hlutafé sínu í evrur í stað íslenskra króna en Seðlabankinn stendur í vegi fyrir þeim breytingum, líkt og Ingólfur orðaði það.

"Ég hefði viljað sjá þetta leyst núna. Þessi félög þurfa á þessu fjármagni að halda og aðgangi að þessum mörkuðum, sérstaklega í þessu umhverfi. Þessi vegna er þetta afskaplega neikvætt hvað þetta hefur dregist," sagði Ingólfur.

"Ég held að áhrifin séu meiri en maður sér í fyrstu," sagði Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans, á sama fundi. "Það væri mjög æskilegt ef menn gætu flutt sig yfir í alþjóðlega mynt."

Þegar illa gengur að ná í fjármagn, breytast yfirtökuskilyrðin, að hennar sögn. Samkeppnistaða rekstrarfélaga. sem geta náð fram rekstrarhagræðingu í yfirtökukapphlaupinu við fjárfestingasjóði, mun batna.

"Ef slík félög geta afhent eigið hlutafé er samkeppnisstaða þeirra enn þá betri," sagði Edda Rós og bendir á að minni áhugi er að taka við bréfum sem eru skráð í íslenskum krónum, en ef þau væru skráð í evrum. Félög sem skráð eru í íslenskum krónum eru ekki eins samkeppnishæf þegar þau bjóða fram eigið hlutafé sem gjaldmiðil í yfirtöku.

"Það skiptir miklu máli að geta afhent eigin bréf, að þurfa ekki að fara í hlutafjárútboð í erfiðum markaði," sagði Edda Rós.