Dómari í Héraðsdómi Reykjavíkur, Arngrímur Ísberg, féllst ekki á þá kröfu ákærðu í Exeter-málinu svonefnda að vísa ætti málinu frá. Úrskurður þess efnis var kveðinn upp í gær. Ákærðu eru sakaðir um umboðssvik er Byr lánaði rúmlega milljarð króna til kaupa á stofnfjárbréfum í Byr skömmu eftir hrun viðskiptabankanna og krónunnar haustið 2008. Stofnfjárbréfin voru meðal annars í eigu ákærðu og MP Banka.

Einkum byggðu ákærðu, Ragnar Z. Guðjónsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri Byrs, Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byrs, og Styrmir Þór Bragason, fyrrverandi framkvæmdastjóri MP Banka, frávísunarkröfu sína á því að málið hefði ekki verið rannsakað nægilega og að embætti sérstaks saksóknara hefði ekki haft heimild til þess að rannsaka málið og gefa út ákæru.

Í úrskurðarorðum sínum, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, er þessum málsástæðum frávísunar hafnað. Í úrskurðarorðum segir m.a. varðandi ásakanir um að málið hafi ekki verið rannsakað nægilega vel: „Á þessu stigi málsins verður ekki séð að nokkuð það sé komið í ljós sem sýni fram á að rannsókn þess sé svo áfátt að varða eigi frávísun. Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að hafna kröfu ákærðu um frávísun vegna þess að málið hafi ekki verið nægjanlega rannsakað til að gefa mætti út ákæru.“

Í úrskurðinum er því einnig hafnað alfarið að það sé nægilega góð ástæða frávísunar að Eva Joly hafi talað frjálslega um rannsóknir mála er tengjast bankahruninu og haft einskonar „allsherjarvald“ yfir embætti saksóknara.

__________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .