*

sunnudagur, 28. nóvember 2021
Innlent 14. mars 2019 19:17

Afskráning Heimavalla samþykkt

Hluthafar Heimavalla samþykktu að afskrá félagið úr Kauphöll Íslands á aðalfundi félagsins í dag.

Ritstjórn
Guðbrandur Sigurðsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Heimavalla.
Haraldur Guðjónsson

Hluthafar Heimavalla samþykktu að afskrá félagið úr Kauphöll Íslands á aðalfundi félagsins í dag. Heimavellir voru skráðir í Kauphöllina 24. maí, og því eru innan við tíu mánuðir liðnir frá skráningu félagsins á markað.

Félög í eigu fjárfestanna Finns R. Stefánssonar og Tómasar Kristjánssonar lögðu upphaflega fram tillögum um að afskrá Heimavelli úr Kauphöllinni þann 1. febrúar. Þeir hafa ásamt framtakssjóðnum Alfa, Vörðu Capital ehf. og Eignarhaldsfélaginu VGJ ehf. boðið í 27% hlut í Heimavöllum, fyrir samtals fjóra milljarða króna, gegn því að félagið verði afskráð. Markaðsvirði Heimavalla í viðskiptum í Kauphöllinni hefur verið talsvert lægra en bókfærðu eigin fé félagsins frá skráningu þess á markað.

Þá voru Árni Jón Pálsson, Erlendur Magnússon, Halldór Kristjánsson, Hildur Árnadóttir og Rannveig Eir Einarsdóttir kjörin í stjórn Heimavalla. Ekki var gerð tillaga um greiðslu arð en samþykkt var heimild stjórnar til að setja upp endurkaupaáætlun og kaupa allt að 10% hlutafjár í Heimavöllum.