Uppsöfnuð skuld hjá samtals 57 ríkisstofnunum var afskrifuð að stærstum hluta við samþykkt lokafjárlaga ársins 2015 á dögunum. Að því er Viðskiptaráð bendir á í umfjöllun sinni eru um tvenns konar afskriftaraðgerðir að ræða:

  • Þær stofnanir sem skulduðu annað hvort yfir 10% af heildarveltu eða yfir 50 milljónir króna fengu 85% af sínum halla afskrifaðan.
  • Undantekning á þessu er Landspítalinn en afskriftir skulda Landspítalans námu 90% af halla, eða alls 2,6. milljarða króna. Samtals afskriftir þessara stofnana námu 5,6 milljörðum.
  • Þær stofnanir sem skulduðu milli 10 og 50 milljónir króna fengu 50% af rekstrarhalla afskrifað. Alls námu afskriftir þessara stofnana 315 milljónum króna.

Sem rök fyrir afskriftunum var sagt að vandi þessara stofnana væri það mikill að ekki væri raunhæft að viðkomandi stofnun gæti unnið á honum.

„Ástæðan var jafnframt sú að skapa ráðuneytum traustari grundvöll undir áætlanagerð og betri aðstæður til að uppfylla kröfu um hallalausan rekstur málaflokka við framkvæmd fjárlaga í samræmi við ný lög um opinber fjármál,“ að því er Viðskiptaráð greinir frá.

Tæplega 6% framúrkeyrsla á ári

Viðskiptaráð bendir á að undanfarin ár hafi endanleg niðurstaða ríkisfjármála ekki rímað við markmið stjórnvalda. Ríkisreikningurinn hafi farið 5,9% fram úr fjárlögum að meðaltali á hverju ári eftir hrun.
Sé horft til fjárlagafrumvarpa hefur framúrkeyrslan numið 8,4% að meðaltali.

Bendir Viðskiptaráð á að í áætlunum fjármálastefnu ríkis og sveitarfélaga næstu fimm árin sé ekki gert ráð fyrir framúrkeyrslu þegar gert er ráð fyrir 1,6% afgangi á næsta ári. Afgangurinn sem reiknað er með fer svo stiglækkandi næstu árin.

„Ráðið áréttar því í ljósi sögunnar mikilvægi þess að ný lög um opinber fjármál nái markmiðum sínum þannig að fyrirfram skilgreind útgjöld ríkisstofnana standist.

Annars er hætta á að afskriftir líkt og þær sem áttu sér stað í lokafjárlögum verði ekki undantekningartilvik heldur meginregla næstu árin.“