Lánardrottnar GMV ehf., áður Malarvinnslunnar á Egilsstöðum, fengu 40% greitt upp í kröfur sínar í þrotabú félagsins. Lýstar kröfur námu tæpum 1,9 milljörðum króna. Upp í veðkröfur fengust 714,6 milljónir króna en í forgangskröfur 42,5 milljónir. Ekkert fékkst upp í almennar eða eftirstæðar kröfur. Skiptum á þrotabúi GMV lauk 14. september síðastliðinn.

Glitnir banki átti hæstu veðkröfuna í þrotabú GMV upp á ríflega einn milljarð króna en Frjálsi fjárfestingarbankinn var með veðkröfu upp á 177 milljónir króna. Byggingadeild fyrirtækisins og einingadeild höfðu verið seldar áður en til gjaldþrots kom. Malarvinnslan var að fullu íeigu Kaupfélags Héraðsbúa.

Keyrði kaupfélagið í þrot

Kaupfélagið keypti reksturinn af bræðrunum Sigþóri og Stefánir Sigurðssonum í október árið 2007. Rekstur Malarvinnslunnar reyndist Kaupfélaginu hins vegar þungur baggi. Malavinnslan var úrskurðuð gjaldþrota í Héraðsdómi Austurlands 11. nóvember ári eftir kaupin og fór Kaupfélag Héraðsbúa sömu leið í byrjun árs 2009. Björn Ármann Ólafsson, þáverandi stjórnarformaður Kaupfélags Héraðsbúa, sagði í samtali við Viðskiptablaðið um þetta leyti gjaldþrot Malarvinnslunnar hafa kostað kaupfélagið 700 milljónir króna. Hluti af því hafi verið kaupverðið á malarvinnslunni.

Í kjölfarið keyptu Samkaup rekstur kaupfélagsins en N1 eignaðist söluskála og hraðbúð á Egilsstöðum. Gjaldþrot Kaupfélags Héraðsbúa snerti við Austfirðingum enda var það umsvifamesta verslunarfyrirtæki Austurlands á sínum tíma. Kaupfélagið var hundrað ára gamalt og störfuðu hjá því vel á annað hundrað manns. Það starfræktisjö dagvöruverslanir, tvær hraðbúðir og söluskála í átta byggðalögum á Austurlandi.