Ítalskt móðurfélag, TDK Foil Iceland, áður Becromal á Íslandi, afskrifaði í byrjun ársins 5,1 milljarðs króna lán til íslenska félagsins og færði niður bókfært virði félagsins að fullu. Félagið TDK Foil Iceland hét Becromal þar til á síðasta ári. Það hefur rekið aflþynnuverksmiðju á Krossanesi við Akureyri frá árinu 2009. Aflþynnurnar eru unnar úr áli og nýttar í ýmiskonar iðnaði.

Rekstur íslenska félagsins hefur verið þungur um nokkurra ára skeið. Eigið fé þess hefur verið neikvætt frá rekstrarárinu 2016/2017. Á síðustu sjö árum hefur íslenska félagið tvívegis verið rekið með hagnaði, það voru rekstrarárin 2013/2014 og síðasta rekstrarár sem lauk 31. mars 2019. Hagnaður síðasta rekstrarárs kemur fyrst og fremst til vegna fyrrgreindar afskriftar af láni móðurfélagsins. Hefði ekki komið til afskriftar lánsins hefði tap verksmiðjunnar að öðru óbreyttu numið um 700 milljónum króna. Með afskrift lánsins batnar eiginfjárstaða íslenska félagsins úr því að vera neikvæð um 5,2 milljarða króna í að vera neikvæð um 800 milljónir króna.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .