Íslenskir stjórnmálamenn sem segja að Ísland muni fá sérmeðferð innan Evrópusambandsins vegna fiskveiða sinna eru á alvarlegum villigötum.

Þetta kom fram í máli Nigels Frage, leiðtoga breska stjórnmálaflokksins UK Independence Party og fulltrúa þess flokks á þingi Evrópusambandsins, en hann hélt fyrirlestur í gær á vegum Heimssýnar og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

„Eins og Ísland á Bretland sér langa sögu sem fiskveiðiþjóð, en við skulum skoða hvað hefur orðið um þessa arfleifð eftir inngönguna í Evrópusambandið,“ sagði Frage enn fremur.

„Þegar fiskveiðistefna Evrópusambandsins er skoðuð má lesa í fyrstu málsgreininni að stefnan byggist á jöfnum aðgangi að sameiginlegum auðlindum. Takið eftir að ég endurtek: sameiginlegum auðlindum. Eftir 30 ára sögu er reynslan þessi: Breskum sjávarútvegi er heimilt að veiða 17% af heildaraflanum sem veiddur er í breskri landhelgi.

Vegna fiskveiðistefnunnar höfum við neyðst til að láta af hendi fjóra fimmtu hluta af aflaheimildum okkar. Vegna þessa höfum við misst 120 þúsund störf við strendur Englands, Írlands og Skotlands. Í Norðursjó er allt að 70% af aflanum hent fyrir borð, en þetta er eitt mesta umhverfsslys af mannavöldum sem um getur í hinum vestræna heimi,“ sagði Frage.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .