Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN) færði um 8,9 milljarða króna á afskriftareikning útlána á síðasta ári. Í fjárlögum fyrir árið 2011 var gert ráð fyrir að upphæðin yrði um 3,5 milljarðar. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Framlag LÍN á afskriftarreikning hefur aldrei verið hærra en nú. Haraldur Guðni Eiðsson, stjórnarformaður sjóðsins, segir ástæðuna þrískipta. Í fyrsta lagi hafi forsendur reiknimódels sjóðsins breyst og í öðru lagi skipti máli að launaþróun lánþeganna, eða greiðenda lánanna, hafi verið neikvæð um 1,77 prósent á árinu 2011. Hins vegar hafi námslánin á sama tíma hækkað vegna verðbólgu og verðbóta.

Þá segir Haraldur að samsetning og hegðun lántaka hafi breyst. Fólk sé nú almenn lengur í námi og hafi margir snúið aftur í nám eftir hrunið sem jafnvel voru með námslán fyrir. Jafnframt hafi fall krónunnar hækkað lán þeirra sem leggja stund á nám við erlenda skóla.

Í fjárlögum var gert ráð fyrir 8,6 milljarða hagnaði LÍN á síðasta ári. Vegna afskriftarframlaganna er raunin hins vegar 239 milljónir króna.