Í Vegvísi Landsbankans segir að áhrif lánsfjárkreppu á fjármálamarkaði geti teygt sig víða. Nýjustu tíðindi af listaverkamarkaði benda til þess að ákveðin tengsl geti verið milli listaverka eftir Vincent van Gogh og skuldabréfavafninga fjármálafyrirtækja. Á uppboði hjá Sotheby's sl. miðvikudag fékkst enginn til að bjóða þær 28 milljónir Bandaríkjadala sem var lágmarksboð í myndina Hveitiakurinn eftir hollenska snillinginn. Þar sem uppboðshúsið var búið að sölutryggja verkið fyrir ótilgreinda upphæð gagnvart eiganda þess er það í raun orðið eigandi verksins.

Bæði Sotheby's og Christie's hafa í auknum mæli sölutryggt verk sem koma til uppboðs, ekki ósvipað og fjármálafyrirtæki hafa gert þegar þau ábyrgjast fjármögnun stórra fyrirtækja í trausti þess að verðbréfin séu auðseljanleg. Vandinn er hliðstæður og mögulega verða uppboðshús sem sitja uppi með dýr listaverk að grípa til afskrifta. Á listaverkauppboðinu í New York í fyrradag er talið að búið hafi verið að sölutryggja verk að verðmæti allt að 209 milljónir Bandaríkjadali. Tekjur af uppboðinu voru 24% undir áætluðu verðmæti listaverkanna sem seld voru. Samkvæmt fréttaveitunni BreakingViews eru 5 sölutryggð verk óseld, þar af eitt eftir Picasso. Hlutabréf í Sotheby's lækkuðu um 38% í kjölfar uppboðsins