Hugbúnaðarrisinn Microsoft ætlar að gjaldfæra 6,2 milljarða dollara kostnað vegna internetdeildar fyrirtækisins og þurrkar það út nær allan hagnað Microsoft á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Forstjórinn, Steve Ballmer, hefur varið gríðarlegum tíma og fé í að byggja upp internetdeild í kringum leitarvélina Bing, en deildinni var ætlað að keppa við Google um auglýsingatekjur á internetinu. Það hefur ekki tekist og verður stór hluti fjárfestingarinnar nú gjaldfærður.

Stærstur hluti fjárhæðarinnar, sem samsvarar um 780 milljörðum króna, kemur til vegna afskriftar á viðskiptavild sem varð til við kaup á fyrirtækinu aQuantive árið 2007. Kaupin kostuðu Microsoft 6,3 milljarða dala á sínum tíma og greiddi fyrirtækið allt kaupverðið í reiðufé. Kaupin á aQuantive vöktu athygli á sínum tíma, ekki síst vegna þess að kaupverðið var 85% hærra en gengi hlutabréfa fyrirtækisins var á þessum tíma. Á fyrsta fjórðungi þessa árs nam tap á internetdeild Microsoft um 1,45 milljarði dala þrátt fyrir umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir.