Sala í bakaríum Jóa Fel jókst um rúmar 78 milljónir króna á milli ára á síðasta ári og nam um 423,4 milljónum króna. Bakaríin eru rekin undir nafninu Hjá Jóa Fel sem er í fullri eigu hins landsþekkta sjónvarpskokks og bakara, Jóhannesar Felixsonar.

Rekstrarhagnaður félagsins nam í fyrra um 14 milljónum króna fyrir afskriftir og fjármagnsliði, en heildarhagnaður nam aðeins um 190 þúsund krónum, samanborið við 4,2 milljónir króna árið áður. Afskriftir fastafjármuna námu um 11,3 milljónum króna. Félagið greiddi 8,8 milljónir króna í arð á árinu og átta milljónir króna árið áður.

Eigið fé félagsins var í árslok um 35,7 milljónir króna og langtímaskuldbindingar námu aðeins 9,7 milljónum króna. Handbært fé í árslok var um 7,6 milljónir króna, samanborið við 23,6 milljónir króna árið áður.