Fjárhagslegri endurskipulagningu Gogoyoko er lokið og eigið fé er nú jákvætt að sögn nýs framkvæmdastjóra fyrirtækisins, Hreins Elíassonar.Endurskipulagningin fól m.a. í sér að hluti af skuldum félagsins var felldur niður og hluta þeirra var breytt í nýtt hlutafé.

Ákvörðun um þetta var tekin á hluthafafundi félagsins í byrjun desember á síðasta ári. Nauðsynlegt var að taka til í efnahag fyrirtækisins, því eins og sagði í skýrslu stjórnar í ársreikningi fyrir árið 2011 þá var Gogoyoko ekki rekstrarhæft í árslok 2011. Heildarskuldir félagsins voru þá 171,3 milljónir króna og eigið fé neikvætt um 84,1 milljón króna.

Hreinn segir að að svo stöddu sé ekki hægt að greina nákvæmlega frá því hve mikið af skuldum var breytt í hlutafé og hve mikið var fellt niður, en eins og áður segir er eigið fé nú jákvætt, þannig að um tugi milljóna hefur verið að ræða.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.