Afskriftir vegna þess að hætt var við þróun á leiknum World of Darkness og öðrum verkefnum innan CCP gerðu það að verkum að tap fyrirtækisins í fyrra var meira en ella. Óefnislegar eignir, sem að stærstum hluta eru eignfærður þróunarkostnaður, voru í árslok 2013 72,3 milljónir dala, eða um 9,6 milljarðar króna, en um síðustu áramót voru óefnislegar eignir 14,3 milljónir dala. Kemur þetta fram í ársreikningi fyrirtækisins.

Alls nam tap CCP í fyrr 65,7 milljónum dala, eða um 8,7 milljörðum króna, en árið 2013 nam tapið 21,3 milljón dala. Rekstrartekjur drógust saman milli ára, voru 76,7 milljónir dala árið 2013 en 68,6 milljónir dala í fyrra. Rekstrarhagnaður lækkaði úr 69,8 milljónum dala í 62 milljónir dala milli ára.

Vegna afskriftanna er eigið fé félagsins nú neikvætt um 15,3 milljónir dala, en var í árslok 2013 jákvætt um 48,3 milljónir dala. Eignir drógust saman úr 104,3 milljónum dala í árslok 2013 í 33,3 milljónir dala um síðustu áramót. Skuldir og skuldbindingar jukust lítillega, voru 23,5 milljónir dala í árslok 2013 en voru 24,3 milljónir dala um síðustu áramót.