*

föstudagur, 29. maí 2020
Innlent 28. nóvember 2019 19:02

Afsláttarsíðan 1111.is opnar á miðnætti

Brynja Dan heldur úti safnsíðu með öllum afsláttunum sem verða í boði næstu daga á einum stað.

Höskuldur Marselíusarson
Brynja Dan Gunnarsdóttir er markaðsmanneskja og frumkvöðull sem stendur að síðunni 1111.is, sem vísar í dag einhleypra en verður safnsíða fyrir alla helstu afslættardaga í netverslunum, líkt og hina komandi svarta föstudag á morgun og rafræna mánudag.
Aldís Pálsdóttir

Markaðsmanneskjan og frumkvöðullinn Brynja Dan Gunnarsdóttir heldur úti síðunni 1111.is þar sem allir afslættir sem verslanir munu bjóða upp á í kringum stóra afsláttardaga eru teknar saman á einum stað.

„Ég hef verið að undirbúa þetta í fimm ár og er síðan sjálf nú loksins orðin að veruleika. Venjulega er rukkað fyrir hvert lógó sem er á síðunni en núna á svarta föstudeginum og rafræna mánudeginum ætlar Netgíró að borga fyrir allar 2.700 verslanirnar sem eru á skrá hjá þeim,“ segir Brynja.

„Síðan er eins konar hattur fyrir verslanir, og er hugmyndin sú að auðvelda fólki lífið, svo það geti séð á einum stað hvaða verslanir eru með afslætti og hvaða afslætti þær eru að bjóða upp á. Þá getur það bara smellt á logo viðkomandi fyrirtækis og farið þaðan inn á netverslanirnar hverja fyrir sig.“

Sístækkandi verslunardagar

Slóðin vísar í 11. nóvember, dag einhleypra sem hefur orðið ein stærsti viðskiptadagur í netverslun í heiminum eftir að kínverski netrisinn Ali baba tók hann upp á sína arma. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í mánuðinum nam heildarvelta netverslunar yfir 30 milljörðum Bandaríkjadala á þessum eina degi.

„Þá var ég að prufukeyra síðuna í fyrsta sinn, og gekk það virkilega vel, við fengum 30 þúsund mismunandi IP tölur inn á síðuna og 60 til 70 þúsund heimsóknir samanlagt,“ segir Brynja Dan, en þetta er samt sem áður fimmta árið sem hún heldur utan um svona safnsíðu fyrir afslætti tengda þessum degi.

„Hingað til hef ég sett þetta á bloggsíðu þar sem fólk hefur getað farið og séð alla afslættina sem eru í boði á þessum degi og svo hef ég verið með auglýsingaborða á fréttamiðlum og samfélagsmiðlum þar sem fólk hefur getað dreift þessu áfram.“

Salan viða tvöfaldast milli ára

Brynja Dan segir að með því að hafa sérstaka síðu utan um þetta hafi tekist að tvöfalda söluna frá síðasta ári í mörgum verslunum sem tekið hafa þátt í þessu, en í raun hafi salan aukist mikið á degi einhleypra hjá öllum þessi sístu ár og tvöfaldast hjá stærstu verslununum.

„Ein verslunin fór til að mynda í þúsund pantanir fyrir tveimum vikum síðan. Ég er með geggjaða heimasíðu en það hefur verið viðvarandi hvað íslenskar síður hafi verið lélegar og krassa þegar mikil umferð fer á þær, en þessi er hýst í Englandi og á að höndla þúsundir gesta inn á sér í einu svo hún ætti aldrei að hrynja,“ segir Brynja Dan sem segir þetta því miður alltof algengt.

„Ég fékk fullt af símtölum svona korter yfir 12 á miðnætti á degi Einhleypra um daginn um að síðurnar hjá verslununum sjálfum væru niðri. Núna færum við út kvíarnar til afsláttardaganna kringum komandi helgi, það er svarta föstudaginn og rafræna mánudaginn, en í flestum tilvikum verða veglegir afslættir í boði frá miðnætti í kvöld fram á mánudag. Flestar eru að bjóða 20 og allt að 80% afslátt að einstökum vörum.“

Ætlar að þróa síðuna áfram

Brynja vonast til þess að í framtíðinni verði svo hægt að leita að ákveðnum vörum inn á síðunni sem opnar á miðnætti í kvöld, en sem stendur er niðurteljarinn að telja hratt niður í að verslanir og fyrirtæki landsins birti þá afslætti sem verða í boði.

„Ég veit ekki hvar verður hæsta tilboðið, en ég hef verið að mæla með að fólk geri sér lista fyrirfram og nýti sér tilboðin til að versla fyrir jólin og þannig minnka jólastressið. Hvort sem það vanti rúm eða heimilistæki eða hvað það er,“ segir Brynja sem er spurð hvort menn ættu ekki bara einmitt að eyða duglega fyrst það græði svona mikið á afsláttunum.

„Alls ekki, ég er eiginlega akkúrat hinum megin á lestinni, að frekar eigi fólk að hugsa með buddunni, og gefa eitthvað veglegt sem fólki virkilega vantar í jólagjöf, en ekki bara kaupa eitthvað til að kaupa, við verðum að hugsa um jörðina okkar.“