Það var góð og afslöppuð stemning í Hlíðarfjalli á gamlársdag og nýársdag þar sem margir nýttu tækifærið til að renna sér í brekkunum. Þá reyna margir að fara síðustu ferð ársins á gamlársdag og mæta strax daginn eftir til að fara fyrstu ferð ársins.

Það sem var frábrugðið núna var fjöldi erlendra ferðamanna sem voru töluvert fleiri en áður að sögn Guðmundar Karls Jónssonar, forstöðumanns í Hlíðarfjalli. „Um 28. desember er fólk að koma norður yfir áramótin. Við sjáum það í skíðaleigunni að yfir 30% búnaðar er til erlendra ferðamanna sem er aukning.“

Á síðasta ári renndu um 15 til 20 þúsund manns sér í Hlíðarfjalli en heimsóknirnar voru í kringum 76 þúsund. Stærsti veturinn var árið 2010 en þá voru 102 þúsund heimsóknir yfir veturinn en meðaltalið er á milli 70 og 80 þúsund. „Það var strax eftir kreppu, lítill snjór í Bláfjöllum og lítið opið. Hjá okkur var mjög góður snjór og gott veður, það dró að. Annars höfum við séð að þegar það er góður vetur í Bláfjöllum er veturinn enn betri hér. Þá byrjar fólk að fara á skíði í Bláfjöllum og vill svo drífa sig norður.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .