Kauphöllin í Frankfurt, Þýskalandi.
Kauphöllin í Frankfurt, Þýskalandi.
© Getty Images (Getty)
Afsögn Þjóðverjans Jürgen Stark úr framkvæmdastjórn Evrópska seðlabankans olli mikilli lækkun á hlutabréfum í Evrópu í dag. Hlutabréf hafa einnig lækkað mikið á Wall Street og ásamt afsögninni er atvinnuáætlun Barack Obama kennt um lækkanirnar.

Fréttaskýrendur WSJ og Bloomberg telja afsögn Stark til marks um óeiningu innan seðlabankans og aðildaríkja myntsamstarfsins um hvernig eigi að bregðast við skuldakrísunni í Evrópu. Stark er eindreginn andstæðingur þess að seðlabankinn kaupi ríkiskuldabréf evrulandanna.

Bankinn hóf mikil kaup á skuldabréfum í síðasta mánuði, sérstaklega ítölskum og spænskum, og hefur á nokkrum vikum keypt skuldabréf að andvirði 50 milljarða evra.

Eftir að seðlabankinn hafði sent frá tilkynningu um afsögnina lækkuðu hlutabréf í öllum helstu kauphöllum Evrópu mikið. Sérstaklega lækkuðu hlutabréf banka.

Í Þýskalandi lækkuðu hlutabréf  Deutsche Bank um 7,09% og Commerzbank um 5,28%, í Frakklandi lækkaði Societe Generale um 10,6% og Credit Agricole um 7,77%, á Spáni lækkaði Banco Santander um 5,62% og á Ítalíu lækkuðu hlutabréf UniCredit og Banco Popolare um rúm 8%. Í Bretlandi lækkaðu bréf Barclays um 9,43% og Lloyds um 5,65%

Óðinn hefur í síðustu vikur fjallað ítarlega um stöðu evrópskra banka. Í athugun í lok ágúst kemur fram að raunverulegt eiginfjárhlutfall stærstu banka Evrópu er á bilinu 1,7-4,4%.

© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)