„Þetta mál snýst ekki um peninga heldur prinsip. Yfirvöld fóru offari í rannsókn þess. Í stað þess að sjá að sér og hætta var því vísað hingað og þangað. Við munum láta málið falla niður ef ríkið biðst afsökunar,“ segir Heiðar Ásberg Atlason hrl. hjá LOGOS, sem rekur mál Friðjóns Þórðarsonar.

Friðjón og bróðir hans Haraldur Ingólfur hafa stefnt ríkinu til greiðslu skaðabóta vegna málsins. Lögmaður Friðjóns segir afsökunarbeiðni duga þótt Friðjón hafi misst starf sitt vegna málsins og orðið fyrir verulegu tjóni.

Forsaga málsins er sú að Friðjón var handtekinn í nóvember árið 2008 vegna gruns um stórfellt auðgunarbrot og brot á lögum um peningaþvætti. Gæsluvarðhalds var krafist yfir honum vegna málsins. Friðjón var á þeim tíma forstöðumaður verðbréfamiðlunar Virðingar. Friðjón og félagi hans Matthías réðu yfir reikningum sem 250 milljónir króna fóru um. Matthías sætti gæsluvarðhaldi vegna málsins í fimm daga. Gæsluvarðhaldskröfu yfir Friðjóni var hins vegar hafnað.

Málið lenti á borði efnahagsbrotadeildar sem taldi að Friðjón og Matthías hafi notfært sér upplýsingar í krafti stöðu Friðjóns til gjaldeyrisviðskipta.

Rannsókn málsins var hætt í febrúar í fyrra. Í kjölfarið kvartaði lögmaður Friðjóns til saksóknara auk þess að senda bréf til umboðsmanns Alþingis.

Lögmaður Friðjóns lagði fram bókun í síðasta þinghaldi málsins í fyrra þar sem boðið var að fella málið niður gegn afsökunarbeiðni. Því var hafnað.

Heiðar segir ekkert óeðlilegt við það að biðjast afsökunar á mistökum. Það hafi breska efnahagsbrotadeildin (Serious Fraud Office) gert í máli Tchenguiz-bræðra.

„Ég ætla að legga það fram í málinu að það sé í lagi að biðjast afsökunar. En kannski vilja þeir halda málinu til streitu,“ segir Heiðar.